Færsluflokkur: Dægurmál

Átta ára stúlka í ræðustól !

 

Í fréttum helgarinnar kom fram m.a. í Fréttablaðinu, að átta ára stúlka í þriðja bekk grunnskóla  hafi á mótmælafundi á Austurvelli sl. laugardag  flutt ræðu. Ræðan fjallaði  um  það að börn væru skuldsett fram til fullorðinsára. Hver ætli að hafi samið þessa ræðu? Er þetta ekki misnotkun  gagnvart barninu?  Þetta var ekki skynsamlegt og alveg út í hött að blanda börnum inn í pólitíska umræðu  sem þau hafa engan þroska til að taka þátt í.  Mér var eiginlega misboðið.

 


Blúshátíð í fremstu röð!

Ef einhver heldur að það sé leiðinlegt á blúshátíð þá er það ekki satt. Tónleikarnir í gærkvöld sögðu mér, sem ekki hafði farið áður,  að þessi hátíð sé best geymda leyndarmál okkar hér í borg. Auðvitað ætti ég ekki að segja þetta nokkrum manni því þá verð ég að mæta miklu fyrr á svæðið varðandi  borðahark. Það stefnir í að  næst verði þessir tónleikar barasta í Egilshöll, er það ekki draumurinn? Sem gamall jálkur þá saknaði ég Magnúsar Eiríks á svæðinu  en hinir voru alveg frábærir, Þau Deitra Farr, Tena Palmer,  Blúsmenn Andreu Gylfa, KK, Berþór Smári, Björgvin Gísla að ógleymdum Guðmundi Péturssyni sem var eiginlega á sviðinu allan tímann. Erfitt er að gera upp á milli listamanna ,en KK og hans band var toppurinn að mínu mati. Hlakka til að fara með stórfjölskylduna aftur á næstu Blúshátíð. Smile

Frístundabyggð í Dagverðarnesi

Hvað er að gerast í hugum landeigenda í Dagverðarnesi í Skorradal, sem hafa stillt upp við vegg fjölmörgum eigendum sumarbústaða með fáranlegri kröfu um kaup á lóðum langt yfir markaðsverði?

 

Ekki er lengur um að ræða að hægt sé að framlengja leiguna á sanngjörnum verðum, heldur  skal fjórðungur úr hektara verða seldur  á níu miljónir eða þú ferð burt!  Þetta finnst mér vægast sagt harkalegar aðgerðir.

 

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, hefur nýlega mælt með stjórnarfrumvarpi á Alþingi um frístundabyggð, sem verja skal rétt sumarbúsareigenda.  Frumvarpið fékk einróma stuðning í umræðum á Alþingi fyrir skömmu og er nú til skoðunar í félags- og trygginganefnd þingsins. 

 

Ágætu þingmenn. Er ekki nauðsynlegt að setja þetta mál í flýtimeðferð, þannig að hægt sé að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi nú um páskana? 

Það er mikið í húfi fyrir  sumarbústaðareigendur í Dagverðarnesi, þar sem leigutíminn er að renna út hjá fjölmörgum á næstu vikum. Nú þarf fólk á vernd að halda og það strax.


Davíð Örn í Gallerí Ágúst

Myndlistarsýningin í Gallerí Ágúst á Baldursgötu er þess virði að ræsa bílinn og leita að bílastæði. Þar sýnir Davíð Örn Halldórsson, listamaður af yngri kynslóðinni  áhugaverðar myndir,  málaðar á vegg og viðarplötur ásamt öðrum efniviði sem hann finnur.  Hann hefur farið víða og sýnt á samsýningum allt frá Rússlandi til New York.  Við hjónin höfðum mjög gaman af að sjá sýninguna og höldum því  fram að Davíð Örn eigi framtíðina fyrir sér í listinni.

Sjón er sögu ríkari!


Almenni skólinn fyrir alla...

 

Mikið fannst mér ánægjulegt að heyra álit Ástu Kristrúnar Ólafsdóttur greinarhöfundar sem birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar s.l. Greinin fjallaði m.a. um nauðsyn þess að standa að nægilega stórum sérskóla sem stendur til til að byggja fyrir börn með vitsmunalega og líkamlega fötlun. 

Já ánægjulegt  segi ég vegna þess að eingöngu hefur farið fram einlit umræða varðandi skólamál þroskaheftra barna. Umræðan gjarnan verið sú að vænlegasti kosturinn í stöðunni væri sá að allir mættu til leiks í almennan skóla. Það hefur verið rekinn linnulaus áróður gegn sérskólum síðustu ár, fáir eða engir foreldrar hafa svarað greinum frá fagfólki vegna þessara mála. Þeir sem eiga börnin sem um ræðir eru aldrei spurðir, og hafa ekki tekið af skarið í þessari orrahríð vegna þess að það er voða leiðinlegt að fólk úti í bæ segi að maður sé vondur við fatlaða.   


Höfundur

Kristín Erlingsdóttir
Kristín Erlingsdóttir
Bloggarinn er kona á besta aldri, kennari, gift og þriggja barna móðir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband